fimmtudagur, 13. desember 2007

Kúrsinn settur

Núverandi hátalara mína setti ég saman úr Peerless kitti 1970 eða '71 og hafa þeir dugað vel. Þetta voru 2x35w hátalarar, 4Ω. Eina breytingin sem ég gerði miðað við grunnplanið var að setja þá í stærri box, ca 60 lítra í staðinn fyrir 30-40 lítra. Þeir komu mjög vel út og hafa dugað vel, en eru nú of litlir fyrir Denon PMA 1500MkII.


Ég hef verið að draga að taka ákvörðun um nýja hátalara; búinn að skoða margt, en það sem ég er sáttur við kostar einfaldlega of mikið. Svo er nú úrvalið á Íslandi ekkert of gott.


Frá því ég vann í Gelli í Hafnarstræti 1974-5, þá hef ég reynt að fylgjast með því sem er að gerast í þessum geira. Ég rakst fljótlega á greinar um hátalar og kit af svokallaðri Transmission Line gerð, en þar er verið að nýta rými í hátalaraboxunum til þess að lengja í bassatíðni hins eiginlega bassahátalara. Það er gert með því að búa til opna rás, sem svarar ca 1/4 þeirrar bylgjulengdar, sem ná á fram, og seinka henni þannig að hún komi í fasa við þá næstu framanúr hátalaranum. Rásin er ýmist opnuð fram, aftur eða upp úr hátalaranum. Með þessari tækni er hægt að ná hátölurum niður undir eða jafnvel niður fyrir 20Hz, sem eru neðri mörk þess sem miðað er við að mannseyrað heyri sem tón í HiFi stöðlum. Enn í dag eru menn að endurselja nokkuð háu verði marga af þessum hátölurum sem þá voru smíðaðir.


Eitt af því sem ég fór því fljótlega að íhuga, var hvort ég fengi einhvers staðar Transmission Line (TL) hátalara eða kit. Fljótlega rakst ég á síðu Ivans P. Leslie, IPL Acoustics, en hann er búinn að prófa sig lengi áfram og kominn með nokkur viðurkennd sett. Suma íhluti smíðar hann jafnvel sjálfur, svo sem spólur, þétta og viðnám í krossóver, og suma hátalarana.


Þegar ég svo átti stórafmæli í haust ákvað ég að nota peninga, sem ég fékk í afmælisgjöf frá vinnustað og vinnufélögum auk aukapenings, sem ég hafði unnið mér inn, í að kaupa eitt gott sett frá honum. Fyrir valinu varð S5TL Plus kittið, 150W, 6Ω, sem er með öllu nema viðnum og tengivírum. Ég fékk að skipta sendingunni, þannig að bassakeilurnar koma sér ásamt einhverju fleiru. Restina tók ég úti í London og tók með mér heim í farangri. Ég slepp því vel tollalega. Síðan hefur tekið við að lesa ágætar leiðbeiningar, sem kannski eru ekki svo frábærlega uppsettar, en þó í lagi, og að gera ýmsar mælingar. Þannig komst ég að því að ég kemst af með eina plötu af 19mm MDF frá Húsasmiðjunni í obbann af hátölurunum, en hefði þurft hálfa aðra plötu hjá Byko, sem þýðir að ég hefði þurft að kaupa tvær. Mismunandi stærðir. En síðan þarf 22mm MDF í hátalarahliðina og 9-10mm í áklæðisramman og smá 6mm í Xoverið.


Ég er enn að bíða eftir bassahátölurunum, en væntanlega er jólatraffikin eittvhað að tefja þá í pósti. Á meðan er ég að skoða hvað annað þarf að kaupa. Það er til dæmis:


  • Verkfæri. Þar vantar mig enn Límbyssu fyrir heitlímingu, en ég keypti stingsög í Brynju í byrjun des. á frábæru verði.

  • Harðviðartappa ef ég ætla að nota tappa til að festa saman hina ýmsu hluta kassanna, sem hvor samanstendur af 21 einingu auk hátalara og þess konar.

  • Tin (hágæða silfur tin)

  • Lím fyrir límbyssu

  • Lím fyrir MDF. Hvað hentar best, bæði til þess að það þorni ekki of hratt, en ekki of hægt, og gefi sem besta þéttingu, því að það skiptir mjög miklu máli.

  • Ástraujanlegur spónn. Hann fæst ekki hér á landi! Ótrúlegt hvað það er margt sem ekki fæst á Íslandi! -- Nema ég máli eða bæsi og lakki kassann? Það er ekki mælt með hörðu lakki, þar sem það herðir hljóðið í hátölurunum.

  • Vír til að tengja hátalarana við Xoverið og jafnvel eitthvað á Xoverinu

  • Vír til að tengja hátalarana við magnarann. Þessir njýta vel tvívírun (biwiring), en þá þarf að nota gott efni. IPL bjóða góða lausn, sem er SC2 (coaxial) fyrir bassan, og þá þarf tvær lengdir (í parallel) af HU1 fyrir midrange og tweeter. Ég er búinn að skoða fleira, en þetta virðist vera skynsamlegasta leiðin. Ég þarf þá að panta það síðar.


Maður er smám saman að uppgötva aðra aðila, sem eru með hluti sem nota mætti í slíka hátalarasmíð, svo sem þennan, sem er með t. d. hina kínversku Swan HiVi hátalara, sem IPL notar í suma hátalara hjá sér: Parts Express. Svo eru náttúrulega margir, sem eru með aðrar útfærslur af TL, en yfirleitt eru þær lausnir dýrari.


Mig er alla vega farið að klæja í fingurna að geta byrjað, en það gæti dregist, þar sem framundan eru verkefni, sem þarf að klára fyrir lok janúar. Eins og annað þá legg ég þetta í hendur Guðs. Hann mun vel fyrir sjá eins og hingað til. (Gott að eiga Guð að).


Meira þegar bassahátalararnir koma.

Engin ummæli: