fimmtudagur, 31. janúar 2008

Tóndeilirinn mátaður í boxið

Maður á að fara eftir leiðbeiningunum! Ég gerði það ekki alveg og tapaði því smá tíma, þar sem ég þurfti að tvívinna smávegis. Ég hafði nefnilega ákveðið að raða upp og líma fasta hlutina í tóndeilinn áður en ég boraði fyrir festingum á bakinu á hátölurunum. Einnig gleymdi ég því að gaddarærnar á að negla í götin á spjaldinu svo að þau festist vel. Þetta tókst svo sem, en tók hálft gærkvöldið til viðbótar við fyrri tíma.

RTFM! (read the furnished manual - eins og þetta var upprunalega - IBM) eða á íslensku: LMH! (lesa meðfylgjandi handbók).

Jú, svo þurfti ég líka að laga útskurð fyrir hátíðnihátalaranum öðru megin. Límdi brot úr tappa í. Þarf svo að kítta í með viðarfylli til þess að allt sé þétt og slétt.

Ég þurfti náttúrulega að nota heitlímbyssuna og fann loksins aðferð til þess að hún virkaði nokkurn veginn eðlilega. Það virðist þurfa að losa stautinn alltaf úr og einnig að pota upp i stútinn með vír til að losa um það sem ekki vill bráðna almennilega eða það sem einhverra hluta vegna vill festa sig einhvers staðar á leiðinni.

Þá er það næst að lóða.

Þetta mjakast.

miðvikudagur, 30. janúar 2008

Lokasendingin frá IPL í hús

Hornstífurnar


Fékk mann til að hjálpa mér með aðstöðu og tæki til að saga hornstífurnar í gær.
Límdi upp tóndeilana í gærkvöldi. Lenti reyndar í vandræðum með límbyssuna. Hún dugar greinilega ekki í mikið meira en þessa tvo stauta sem fylgja henni. Algert drasl. Ég þarf hugsanlega að kaupa aðra. Hvernig stendur á að "virðuleg" fyrirtæki eins og Húsasmiðjan selja svona drasl?
Svo er bara að lóða með silfurtininu, sem er að koma.

Sendingin


Náði í sendinguna frá IPL í hádeginu í dag. 2stk. 10", HU1 vír 7m, hátalarakaplar 20m, silfurtin 2m og tekkspónn álímanlegur.
Mér finnst hins vegar nokkuð mikið sem pósturinn tekur í toll. 17 þús. kr. alls þurfti ég að borga. Þeir tollflokka ekki eftir sunduliðun, heldur setja allt í 25% vörugjald. Engan veginn er skýrt á reikningi þeirra hvaða prósentur eru notaðar né vísað í tollskrá. Ég held að tollpósturinn sé að rukka aukalega og hugsanlega með ólögmætum hætti fyrir tollstjóraembættið. Það þyrfti að athuga þetta.

Spónninn kemur vel út. Mun fallegri en mig grunaði. HU1 er mikið mjórri en ég hélt og kaplarnir eru nokkuð mjórri líka.

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Útsögun lokið

Ég dreif mig í að saga út grillið í gærkvöldi. Það gekk bara fínt. Maður er svona að læra á tækin. Mér sýnist að það sé smá hægri-villa í þessari. Blaðið leitar alltaf ögn til hægri, þannig að ekki er hægt að treysta á beinan skurð eftir landi. Það þarf að handstýra til vinstri. Kannski þetta sé munurinn á hobbý og professional verkfærum. Kæmi mér ekki á óvart.
Það var álíka mikil vinna að þrífa eins og að saga út.
Næsta mál er væntanlega að líma upp á tíðnideilinn. Síðan þarf ég að saga niður hornstífurnar.

mánudagur, 28. janúar 2008

Nokkrir tenglar á IPL

IPL - http://www.iplacoustics.co.uk
Heimsókn á staðinn - http://www.tubedistinctions.co.uk/ipl.htm
Julian setur saman S5TL - http://zerogain.com/forum/showthread.php?t=6136?t=6018
Julian ánægður með árangurinn - http://www.zerogain.com/forum/showthread.php?t=6443
Julian leitar leiða við að búa til x-over box - http://www.zerogain.com/forum/showthread.php?t=6018
Julina búinn að setja saman og setja upp - http://zerogain.com/forum/showpost.php?p=19&postcount=2
"A Speaker Kit with a Difference" - http://www.tnt-audio.com/casse/ipls3mtl2_e.html
Ýmsar skýrslur (review) um Transmission Line hátalara - http://www.t-linespeakers.org/projects/links.html

Áfram með grillið

Áttaði mig allt í einu á því að ég hafði gleymt að skera út fyrir loftunargatinu. Mér fannst allt í einu að grindin yrði of veik til þees að strekkja tauið yfir, þannig að ég fór að mæla út og merkja fyrir hátalaraeiningunum sjálfum. Líklega enda ég samt á að skera skv. upprunalegum teikningum. Strekkingin á greinilega ekki að vera mikil. 18mm MDF lengja 282mm löng þolir varla mikla strekkingu. En svo, eins og einn vinur minn benti á, er gott að strekkja eða leggja fyrst þunnan svamp undir. Kannski er líka í lagi að skipta gatinu í tvennt og skilja ca 10mm póst eftir í miðjunni?

laugardagur, 26. janúar 2008

Merkt fyrir á grilli

Gerði ekki mikið í gær. Náði þó að merkja fyrir útsögun á grillunum. Kemst sennilega ekki í að saga fyrr en á morgun.

föstudagur, 25. janúar 2008

Hitt boxið komið af stað

Setti saman lok, botn bak, framhlið og aðra hliðina í hinn hátalarann í gærkvöldi. Gekk eins og í sögu. Næsta mál: líma íhluttina fyrir tíðnigreininn (x-over kompónentana) niður á spjaldið, fara og saga skástífur og setja fláa á grillplöturnar. Saga síðan út í grillplöturnar. Hefla fláa á P1 plöturnar og rúnna hinn endann á þeim og annan endann á P2 og P3.



Millispjöldin rúnnuð, hefluð og slípuð með juðara.


Skila tjónalýsingu til ParcelForce v/IPL.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Annað boxið komið áleiðis

Keypti 2 stk. metra langar þvingur í gær. Hefðu mátt vera 4 stk. Náði að líma topp, lok, bak og framhlið á vinstri hliðina. Frábær hugmynd hjá Ivan þetta með kubbana, sem maður límir inn sem stýrikubba. Hjálpar mikið til.

Næsta verkefni er hitt boxið að sama marki. Síðan þarf að setja saman tíðnigreininn (Crossover) og skrúfa hann í.

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Fyrsta gatið

Keypti strekkjara og stingsagarblöð. Fékk borvélina mína í gærkvöldi og gat byrjað að gera götin. Kláraði að líma botnana. Lokin fara á síðar.

sunnudagur, 20. janúar 2008

Merkingar og fyrsta líming

Búinn að stilla af og staðreyna mælingar og merkja fyrir flest. Keypti ágætis hitalímbyssu og límstauta í Húsasmiðjunni í gær. Fékk gamla smíðaborðið mitt aftur í dag. Vantar nú borvélina, borana o.fl. sem eru hjá Lísu. Vantar líka 2 stk. þvingur ca 1m á lengd og 2 stk ca 50cm langar. Mínar eru ekki nema 15 og 20 cm. Náði að líma fyrsta stykkið, framstykkið á sökkulinn. Þetta verður að duga þangað til á morgun.


Búið að líma endastykkið (toppinn) og stillikubbana. Nota heitlím til að líma kubbana og PVA til að líma stykkin saman. Límbyssan ofan í kassanum. Þverspýtuna vinstra megin er ég aðeins að nota til að stilla bak og framhlið af. Efst til vinstri er lítið 10 sm stykki sem passar í gatið sem verður neðst að framan og er fyrir baksvefluna úr bassakeilunni.

föstudagur, 18. janúar 2008

Húsasmiðjan kemur til móts við mig

Ég hringdi í Húsasmiðjuna og talaði við sölustjórann í timbrinu. Við sættumst á að hann bæti við staðgreiðsluafslátt á reikningnum hjá mér til áramóta. Þá er bara að muna að staðgreiða!

MDF efnið komið - en er ekki hægt að treysta Húsasmiðjunni?

Ég raðaði upp á blað stykkjunum sem saga átti út úr MDF plötunum hjá Húsasmiðjunni. Það reyndist allt rétt nema að þeir söguðu út tvær grillplötur saman í staðinn fyrir tvær. Ég þurfti því að bíða eftir því að þeir söguðu það í sundur.
Ég hafði einnig beðið um 6mm efni MDF eða krossvið, annað hvort sagað út 2 stk. 113x230mm eða að fá einhverja smábúta til að hirða. Ég var búinn að fá tilboð frá þeim í þetta. Það var í afgreiðslunni. 22þús kr. Það átti líka að saga út tvo til þrá renninga 19mm úr 19mm plötunni. Það fórst fyrir.

Þegar upp var staðið ætluðu þeir að rukka fyrir hálfa 6mm plötu plús alla þessa sögun extra og líka þegar starfsmaður hafði látið saga 19sm í staðinn fyrir 19mm! Ég mótmælti því, en endaði samt í að þurfa að borga 25.300 kr. Ég er ekki sáttur við svona afgreiðslu. Alltof íslenskt!

Að öðru leyti: öll mál stóðust. Á Íslandi finnst manni það vera plús, ekki sjálfsagt.

Alla vega, heim í hús komst þetta og ég byrjaði á því að raða hlutunum saman til þess að sjá hvort ekki væri allt samkvæmt málsetningu. Það kom á daginn.





Uppröðun. Öll mál stóðust hjá Húsasmiðjunni. Plöturnar lauslega hnýttar saman með neti utan af jólatré!


En ferlegt hvað maður getur orðið ruglaður. Með dúndrandi hausverk í gær. Ein Parkódín Forte til að slá á. En samt skildi ég ekkert hvað voru margir litlir bútar. Ég var gjörsamlega búinn að gleyma standinum, sem er 6 stk. hvor!

Byrjaði að teikna fyrir útskurði. Kláraði framplötuna og bakið í annan hátalarann. Ætli maður komist ekki til að saga út um helgina?

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Pöntun á eftirstöðvum og pælingar í köplum

Búinn að panta það sem upp á vantar hjá IPL. 10" hátalarana aftur, ástraujanlegan spón, vírinn til að tengja inni í boxinu og hátalarakapla. Ég endaði á að taka VanDamme Blue Series Studio Grade 2,5mm. Þeir fá allst staðar frábæra dóma, ekki síst með tilliti til verðs. Og IPL er með þá ódýrari en flestir. Enda framleiddir í Devon, skilst mér.

Ég fór út um allan bæ á klukkutíma í gær (milli kl. 5 og 6) og hreint blöskraði verðin, sem boðið er upp á í þessum málum. Ég er að fá meterinn af VanDamme á ca 200 kr. hingað kominn, en sami klassi er yfirleitt á einhverja þúsundkalla í búðum hér.

Síðasti aðilinn sem ég talaði við, sagðist vera löngu hættur að pæla í þessum dýru lausnum. Hann hafði uppgötvað að mjúkt silfur 99,9% væri best. Hann sagði mér ekki hvaða þykkt, en þetta er einþátta vír. Flestir mæla með ca AWG 20, sem er ca 0,5mm. Síðan klæðir maður vírinn í kápu úr góðu efni og snúran er tilbúin fyrir annan pólinn.

Það væri gaman að prófa þetta einhvern tíma. Þetta er sennilega 4-5 sinnum dýrara en VanDamme, en betra en dýrustu lausnir, sem eru langtum dýrari.

Búinn að panta MDF

Pantaði MDF og skurð í Húsasmiðjunni í gær. Þetta á að vera tilbúið hjá þeim á morgun. Þeir eiga að vera með mjög nákvæma sögun +/- 0,2mm. Það lofar góðu. Reyndar skildist mér á þeim í Grafarholtinu að Skútuvogur væri með fláaskurð, en það er ekki tilfellið. Ég verð þá bara að saga gráðuskurðinn sjálfur.

föstudagur, 11. janúar 2008

Lengi lifi Íslandspóstur!

Já, þeir bættu mér hátalarana að mestu eða öllu leyti. Nú er að panta þá aftur og hugsanlega það annað sem ég þarf að fá hjá IPL, eins og kapla og spón. Einnig þarf kallinn að bæta við holuskinnum fyrir hátalarapinnana, en þeir komu ekki með öðru "hardware".

Ég hafði samband við Húsasmiðjuna varðandi efnið í boxin og þeir geta sagað nánast allt upp í hendurnar á mér. Góð þjónusta þar einnig.

Geng frá því eftir helgi.