föstudagur, 29. ágúst 2008

Hátalarasmíðinni að fullu lokið



Grillið komið á.
(Normal lýsing.)




Grillið komið á.
(Myndin yfirlýst til þess að dökku litirnir greinist betur að.)


Þá eru hátalararnir endanlega tilbúnir og prófaðir.




Bak og hlið
Takið eftir röndóttu málningunni á bakinu! Mega kúl!


Ég verð að láta hverjum og einum eftir að meta árangurinn, en hvað hljóðið varðar, þá var ég að prófa þá í gærkvöldi og tók úr þeim alla ull nema bak við miðtónahátalarann. Þeir hljóma hreinir og tærir -- og jafnir, nema hvað stofan og hið opna rými bregst mjög mismunandi við mismunandi tíðni eftir staðsetningu. Það mundi bæta hljóminn að setja upp t. d. þykk gluggatjöld, gólfteppi eða eitthvað slíkt.


Niðurstaða: Ekki er ástæða til að skipta um viðnám í tíðnideili eins og ég hafði ætlað mér. Hátalararnir eru fínir eins og þeir eru. Takk Ivan P. Leslie fyrir frábæra hönnun (teikningar) og aðstoð.

mánudagur, 11. ágúst 2008

Spónlagning

Spónlagningu lokið

Salmonella, sem ég náði mér í úti í Búlgaríu tafði mig um tvær vikur, en ég er búinn að lakka hátalarana framan og aftan og spónleggja hliðar, topp og botn og líma botndiskana undir. Glærlakkaði spónlögðu fletina þrjár umferðir um helgina. Komst að raun um að viðarfyllirinn er varasamari en ég hélt. Viðurinn er fremur gljúpur og viðarfyllirinn fyllir aftur í allar sprungur og gefur þannig of slétt yfirborð. Ennfremur virðist þurfa að slípa hann algerlega niður, ella kemur hann út sem ljósari klessa séð frá vissum sjónarhornum.


Ég þar sem sé að slípa dálítið niður áður en ég hefst handa við fleiri umferðir af lakki.


Þá bætti ég íslenskri pelsull við ullina sem fyrir var og mér finnst það satt að segja til bóta. Bassinn dempast aðeins meira og því ekki þörf fyrir að skipta út viðnámum. -- Reyndar var ég búinn að taka út annan dóndeilinn (crossover) og ætlaði að fara að skipta um viðnám þegar ég uppgötvaði að ég hafði bara keypt í einn hátalara! Hversu heimskur getur maður ekki verið! Silfurtinið, sem ég keypti hjá sama aðila á Ebay verslun hans reyndist hins vegar frábærlega. Bræðslumark í kring um 185°C.


Ég er sem sé nokkuð sáttur í bili. Og svo er það grillið. Nei, ég er ekki að tala um gas- eða kolagrill!

miðvikudagur, 11. júní 2008

Sökklarnir klárir og komnir undir hátalarana

Það hafðist að klára sökklana. Ebonylakkaðir og allt. Spækarnir á sinn stað - upp í loft - og hátalararnir ofan á. Það er ótrúlegt hvað þetta breytir hljóðinu. Bassinn verður jafnari og þéttari. Hreint dúndur. Spurning hvort ég þarf nokkuð að eiga við þá meira annað en að klára þá útlitslega.

Stefni að því að ná því í sumarfríinu.

(Ég þarf að henda mynd inn fljótlega).

fimmtudagur, 22. maí 2008

Sandur kominn í annan sökkulinn

Svakalega tekur langan tíma að þurrka sand. Og svakalega fer mikill sandur í sökklana. Líklega um 15 lítrar í hvorn. En alla vega, þá er ég búinn að þurrka heila fötu og sandurinn fór í annan sökkulinn í gær og lokið var límt ofaná.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Sandur í sökkla

Það er orðið nokkuð um liðið, síðan ég færði inn síðast, en verkefnin hafa verið mikil. Nú er ég sennilega að fá tíma til að fara í stillingar og ljúka smíðinni.


En ég er búinn að ná mér í sand í sökklana og er að þurrka hann. Kannski verður hann orðinn þur um helgina. Þá verður hægt að fylla þá, loka þeim, pússa og mála -- og setja pinnana!


Meira fljótlega.

mánudagur, 10. mars 2008

Enn framfarir

Hátalararnir eru enn að batna. Diskantinn er kominn upp, þannig að ekki er lengur þörf á að auka við diskant á magnaranum. Ennþá þarf ég þó að minnka bassann aðeins. Sjáum til í 2-3 vikur enn.

þriðjudagur, 4. mars 2008

Áframhaldandi prófun

Hátalararnir eru að tilkeyrast. Tónninn að mýkjast, en góðir hátalarar sýna lélegu inpútti enga miskunn. Ég þurfti að setja magnarann í viðgerð, því að hægri rásin var að truflast (það dró niður í henni annað slagið og einstöku sinnum heyrðust smá brestir). Það er víst heita vatnið og brennisteinsvetnið sem því fylgir, sem leggst á kontakta og Denon er greinilega með silfur í sínum snertum, þannig að verkstæðið skiptir yfirleitt um snertur. Þeir áttu þær ekki núna og létu nægja að hreinsa og húða með hlífðarefni.
Þannig að núna virkar allt fínt.

Ég er búinn að prófa alls konar músik núna, og mér sýnist stefna í að ég þurfi að minnka viðnámin á miðtónana og í það minnsta hátónana. Það má prófa líka að auka við ullina á mismunandi stöðum til að tempra bassann.

Annars (eins og vísað var til hér að ofan) eru innpúttin misjöfn. Sérstaklega kemur þetta mikið fram á sjónvarpinu. RUV er í fína lagi, en Stöð tvö og flestar aðrar rásir virðast hljóðhannaðar af guttum eins og þeim sem fylla skottið á bílunum sínum af bassakeilum. Verulega ýktur bassi og mikið til lýta. Þetta kemur ekki mikið fram í sjónvarpstækinu sjálfu, en þegar hljóðið er tekið yfir í góðan magnara (HI-FI) og hátalara, sem skila dýpt, þá er ekki gaman.

Stöð tvö og aðrar sjónvarpsrásir, sem láta heyrnarskerta unglinga stjórna hljóðinu, ættu að hugsa sinn gang!

Það verður smá hlé á frekari skrifum, því að ég reikna ekki með að hafa tíma til frekari tilrauna á næstunni. En það er verulega gaman að geta stjórnað eðli hátalaranna eins og hægt er að gera með þessa frá IPL Acoustics.

Næsta mál er að klára að setja tauið á grillið og síðan að mála hátalarana framan og aftan og að spónleggja þá. Einnig er eftir að fá þurran sand og fylla sökklana, líma lokið á þá, mála og setja pinnana (spikes) á.