mánudagur, 18. febrúar 2008

Hátalararnir samsettir, tengdir og prófaðir

Jæja, þá hafði ég það af. Náði að klára að líma saman hátalarana á laugardagskvöld. Ég lagaði fyrst það sem ekki hafði náð að festast nógu vel af frauðplastinu, krumpaði einangrunarhólkana í deiliboxinu og á plús snúrunum í hátalarana, svo að ekki kæmi upp víbringur þar, merkti þær einnig með rauðu teipi, límdi inn í hliðarplötuna frauðplötuna, sem á að vera til hliðar við bassann, vigtaði ullina og setti í á þremur stöðum samkvæmt tilmælum hönnuðar.





Hér er búið að merkja plúsana, setja ullina og frauðið í hornin (viðbót við það sem hönnuður setur upp). Reyndar endaði ég á að setja ull á alla fjóra staðina, sem mælt er með og virðist ekki af veita.



Allt small þetta saman og prófun nú skilaði betri árangri heldur en forprófunin, sem minnst var á í fyrri pistli. Hátalararnir eru ekki eins "boomy", en hátíðnin er samt hlutfallslega veik miðað við mið- og bassaeiningarnar. Líkast til þarf ég að skipta um viðnám og fara niður um 1,5 ohm (eins mikið og leyft er) fyrir hátíðnina. En það er best að leyfa hátölurunum að brjóta sig í nokkrar vikur og skoða málið þá.




Að öðru leyti kom prófunin frábærlega út. Klassík og kóramúsík kemur sérstaklega vel út, en einnig músíkal eins og "Chess" eftir þá ABBA félaba Björn og Benny og textahöfundinn Tim Rice. Ótrúlegt dúndur. Ég prófaði einnig m.a. "In the Plain" með Savage Rose og þar opnuðust nýjar víddir. Hreint frábært miðað við plötu (disk) frá 1968 (diskurinn reyndar remasteraður fyrir nokkrum árum -- masterinn hlýtur að hafa verið góður!).

Gospel og lofsöngsmúsík frá Vinyard hljómaði nú allt í einu stórfenglega.

Dýptin í hátölurunum er ótrúleg, bassinn hreinn og tær og auðstaðsettur. Miðtónarnir skýrir og gefa bæði miklu betra stereó en gömlu hátalarnir, en einnig koma öll smáatriði miklu betur fram. Veik hljóðfæri, sem áður heyrðust ekki fá nú að skína í gegn.

Hátalararnir eru einni að skila meiru núna en áður, sem sýnir sig í því að sama styrkstilling á magnaranum gefur meira hljóð en áður.



SDG (Soli Deo Gloria)!

þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Fyrsta prófun

Ég náði að klára að setja hátalaraeiningarnar í seinna boxið. Þá var bara að tengja og sjá hvort allt virkaði rétt. Og það var ekki annað að heyra. Lokið var bara lauslega fest með einu bandi, þannig að bassinn verður engan veginn eins þéttur eins og í endanlegu boxi, en hátalararnir virðast keyra léttar en þeir gömlu. Mjög skýrir og stereóið miklu betra en í þeim gömlu. Miðtónasviðið skýrara og djúpur bassi kemur vel fram. "Loudness" er óþarft jafnvel á minnsta styrk. Örlítið plasthljóð miðað við hina, en ég á von á að það breytist þegar búið verður að tilkeyra hátalarana.






Vinstri hátalarinn með grillrammanum, hinn ekki.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Boxin að verða tilbúin

Hér er seinna boxið langt komið. Ég sneið og límdi nú fyrst motturnar í botninn. Þær eru úðalímdar í með léttu gúmmíkenndu lími. Það er ástæðan fyrir því að ég nota málningarlímband á kantana.

Ég náði í gærkvöldi að klára annað boxið til prófunar og á bara eftir að setja hátalarana í hitt til þess að hægt sé að testa hvort allt virki. Ef allt er í lagi, þá er hægt að loka boxinu (líma vinstri hliðarnar á).

föstudagur, 8. febrúar 2008

Samsetning á lokastigi

Ég hef ekki haft tíma til að færa inn nýlega, en samsetningunni er að verða lokið.




"Innveggir" og skástífur eða endurkastshorn límd í boxið.

Búið að setja skástífurnar í báða hátalarana og þverstífurnar í annan hátalarann, nema þá sem fer efst og á að vera úr harðviði.


Ég fékk harðviðarbút í gær í Efnissölunni. Þetta var bútur úr umbúðum, en fyllilega nægilega góður til þessa brúks. Hann er líka það grófur að hann ætti að halda vel við ullina sem þar á að vera.


Lóðningin reyndist vera smá vandamál, því að þó að ég sé með 100w lóðbyssu, þá er oddurinn þannig formaður að hann nær ekki góðum kontakt og svo er þetta gikkbyssa og má ekki ganga nema ca 12 sekúndur í einu og þá þarf hún að hvíla sig í einhverjar mínútur. Vandamálið var sem sé hátalaratengin, sem eru gullhúðaðir stautar og nokkuð massívir. Þannig að ég fór í Rafvörumarkaðinn í Fellsmúla og fékk mér 100w járn (ca kr. 1100) sem getur lagst alveg að pinnanum. Ég prófaði að tina járnið í gær, en það misheppnaðist. Hefur líklega verið orðið of heitt þegar ég reyndi að tina. Skoða það aftur í kvöld.


Ég fékk mér einnig ódýrt kítti í túbu til að fylla í allar hugsanlegar rifur. Búinn að kítta báða hátalarana. Líka búinn að spreylakka svart gatið á bakinu fyrir hátalaratengin.


Dálítið tímafrekur þessi frágangur allur.


Næst er að tengja hátalaravírana við tóndeilirinn í seinna boxinu (sem ég þarf 100w járnið við), líma þverstífurnar innan í seinna boxið, líma frauðmotturnar innan í gangana, fylla hornhólfin af frauði, tengja og festa hátalarana í boxin og prófa. Þetta þyrfti að klárast um miðjan dag á morgun!


Hér sést annað boxið með tóndeilinum ísettum. Einnig er búið að kítta allt, bora gegnum millispjaldið fyrir vírunum í mið og hátíðni-hátalarana og draga í gegn. Þá sjést eitthvað af frauðmottunum tilsniðnum og ýmslegt smálegt.

föstudagur, 1. febrúar 2008

Hvar fæ ég diska eða hljóðfæla til að prófa tíðnisvið?

Marchand Electronics Sweep.
Atomic Software
Denon Hi-Fi Check CD
Audio Tools CD
og fleira á CD Universe

Meiri vinna í tóndeili

Frétti af verslun í Bolholtinu, Handverkshúsið. Fékk þar svart þunnt lakkspray og smáskrúfur. Þar fæst líka góður beis, en hann kostar 1800 og 2000 kr. brúsinn. Dálítið dýrt. Skoða málið annars staðar.
Fékk í Íhlutum vírahulsur (heatshrink).

Ég gat því klárað undirbúninginn að að geta farið að lóða á tóndeilinum, en til þess þarf náttúrulega að vera búið að ganga þannig frá hlutunum að tengipinnarnir fyrir hátalarakaplana séu endanlega fastir og rétt stilltir. Þar með þarf að vera búið að ganga frá yfirborði á baki tóndeilisspjaldsins.

Þegar ég var að meðhöndla tóndeilana losnuðu þrjú stykki á öðrum þeirra. Augljóst er að límbyssan er léleg -- hún hitar einfaldlega ekki nógu vel. En ég fann ráð víð því. Gas arin/kertakveikjari, sem virkar eins og nett logsuðutæki er notaður sem sígarettukveikjari á heimilinu. Hann virkaði vel. Hitaði límið upp og nú festist allt vel.

Og nú er allt tilbúið til lóðningar!



Tóndeilarnir samsettir að mestu. Bara eftir að lóða vírana í hátalaraeiningarnar og smá enda, sem ég nota sama vír í.