mánudagur, 18. febrúar 2008

Hátalararnir samsettir, tengdir og prófaðir

Jæja, þá hafði ég það af. Náði að klára að líma saman hátalarana á laugardagskvöld. Ég lagaði fyrst það sem ekki hafði náð að festast nógu vel af frauðplastinu, krumpaði einangrunarhólkana í deiliboxinu og á plús snúrunum í hátalarana, svo að ekki kæmi upp víbringur þar, merkti þær einnig með rauðu teipi, límdi inn í hliðarplötuna frauðplötuna, sem á að vera til hliðar við bassann, vigtaði ullina og setti í á þremur stöðum samkvæmt tilmælum hönnuðar.





Hér er búið að merkja plúsana, setja ullina og frauðið í hornin (viðbót við það sem hönnuður setur upp). Reyndar endaði ég á að setja ull á alla fjóra staðina, sem mælt er með og virðist ekki af veita.



Allt small þetta saman og prófun nú skilaði betri árangri heldur en forprófunin, sem minnst var á í fyrri pistli. Hátalararnir eru ekki eins "boomy", en hátíðnin er samt hlutfallslega veik miðað við mið- og bassaeiningarnar. Líkast til þarf ég að skipta um viðnám og fara niður um 1,5 ohm (eins mikið og leyft er) fyrir hátíðnina. En það er best að leyfa hátölurunum að brjóta sig í nokkrar vikur og skoða málið þá.




Að öðru leyti kom prófunin frábærlega út. Klassík og kóramúsík kemur sérstaklega vel út, en einnig músíkal eins og "Chess" eftir þá ABBA félaba Björn og Benny og textahöfundinn Tim Rice. Ótrúlegt dúndur. Ég prófaði einnig m.a. "In the Plain" með Savage Rose og þar opnuðust nýjar víddir. Hreint frábært miðað við plötu (disk) frá 1968 (diskurinn reyndar remasteraður fyrir nokkrum árum -- masterinn hlýtur að hafa verið góður!).

Gospel og lofsöngsmúsík frá Vinyard hljómaði nú allt í einu stórfenglega.

Dýptin í hátölurunum er ótrúleg, bassinn hreinn og tær og auðstaðsettur. Miðtónarnir skýrir og gefa bæði miklu betra stereó en gömlu hátalarnir, en einnig koma öll smáatriði miklu betur fram. Veik hljóðfæri, sem áður heyrðust ekki fá nú að skína í gegn.

Hátalararnir eru einni að skila meiru núna en áður, sem sýnir sig í því að sama styrkstilling á magnaranum gefur meira hljóð en áður.



SDG (Soli Deo Gloria)!

Engin ummæli: