föstudagur, 8. febrúar 2008

Samsetning á lokastigi

Ég hef ekki haft tíma til að færa inn nýlega, en samsetningunni er að verða lokið.




"Innveggir" og skástífur eða endurkastshorn límd í boxið.

Búið að setja skástífurnar í báða hátalarana og þverstífurnar í annan hátalarann, nema þá sem fer efst og á að vera úr harðviði.


Ég fékk harðviðarbút í gær í Efnissölunni. Þetta var bútur úr umbúðum, en fyllilega nægilega góður til þessa brúks. Hann er líka það grófur að hann ætti að halda vel við ullina sem þar á að vera.


Lóðningin reyndist vera smá vandamál, því að þó að ég sé með 100w lóðbyssu, þá er oddurinn þannig formaður að hann nær ekki góðum kontakt og svo er þetta gikkbyssa og má ekki ganga nema ca 12 sekúndur í einu og þá þarf hún að hvíla sig í einhverjar mínútur. Vandamálið var sem sé hátalaratengin, sem eru gullhúðaðir stautar og nokkuð massívir. Þannig að ég fór í Rafvörumarkaðinn í Fellsmúla og fékk mér 100w járn (ca kr. 1100) sem getur lagst alveg að pinnanum. Ég prófaði að tina járnið í gær, en það misheppnaðist. Hefur líklega verið orðið of heitt þegar ég reyndi að tina. Skoða það aftur í kvöld.


Ég fékk mér einnig ódýrt kítti í túbu til að fylla í allar hugsanlegar rifur. Búinn að kítta báða hátalarana. Líka búinn að spreylakka svart gatið á bakinu fyrir hátalaratengin.


Dálítið tímafrekur þessi frágangur allur.


Næst er að tengja hátalaravírana við tóndeilirinn í seinna boxinu (sem ég þarf 100w járnið við), líma þverstífurnar innan í seinna boxið, líma frauðmotturnar innan í gangana, fylla hornhólfin af frauði, tengja og festa hátalarana í boxin og prófa. Þetta þyrfti að klárast um miðjan dag á morgun!


Hér sést annað boxið með tóndeilinum ísettum. Einnig er búið að kítta allt, bora gegnum millispjaldið fyrir vírunum í mið og hátíðni-hátalarana og draga í gegn. Þá sjést eitthvað af frauðmottunum tilsniðnum og ýmslegt smálegt.

Engin ummæli: