föstudagur, 29. ágúst 2008

Hátalarasmíðinni að fullu lokið



Grillið komið á.
(Normal lýsing.)




Grillið komið á.
(Myndin yfirlýst til þess að dökku litirnir greinist betur að.)


Þá eru hátalararnir endanlega tilbúnir og prófaðir.




Bak og hlið
Takið eftir röndóttu málningunni á bakinu! Mega kúl!


Ég verð að láta hverjum og einum eftir að meta árangurinn, en hvað hljóðið varðar, þá var ég að prófa þá í gærkvöldi og tók úr þeim alla ull nema bak við miðtónahátalarann. Þeir hljóma hreinir og tærir -- og jafnir, nema hvað stofan og hið opna rými bregst mjög mismunandi við mismunandi tíðni eftir staðsetningu. Það mundi bæta hljóminn að setja upp t. d. þykk gluggatjöld, gólfteppi eða eitthvað slíkt.


Niðurstaða: Ekki er ástæða til að skipta um viðnám í tíðnideili eins og ég hafði ætlað mér. Hátalararnir eru fínir eins og þeir eru. Takk Ivan P. Leslie fyrir frábæra hönnun (teikningar) og aðstoð.

mánudagur, 11. ágúst 2008

Spónlagning

Spónlagningu lokið

Salmonella, sem ég náði mér í úti í Búlgaríu tafði mig um tvær vikur, en ég er búinn að lakka hátalarana framan og aftan og spónleggja hliðar, topp og botn og líma botndiskana undir. Glærlakkaði spónlögðu fletina þrjár umferðir um helgina. Komst að raun um að viðarfyllirinn er varasamari en ég hélt. Viðurinn er fremur gljúpur og viðarfyllirinn fyllir aftur í allar sprungur og gefur þannig of slétt yfirborð. Ennfremur virðist þurfa að slípa hann algerlega niður, ella kemur hann út sem ljósari klessa séð frá vissum sjónarhornum.


Ég þar sem sé að slípa dálítið niður áður en ég hefst handa við fleiri umferðir af lakki.


Þá bætti ég íslenskri pelsull við ullina sem fyrir var og mér finnst það satt að segja til bóta. Bassinn dempast aðeins meira og því ekki þörf fyrir að skipta út viðnámum. -- Reyndar var ég búinn að taka út annan dóndeilinn (crossover) og ætlaði að fara að skipta um viðnám þegar ég uppgötvaði að ég hafði bara keypt í einn hátalara! Hversu heimskur getur maður ekki verið! Silfurtinið, sem ég keypti hjá sama aðila á Ebay verslun hans reyndist hins vegar frábærlega. Bræðslumark í kring um 185°C.


Ég er sem sé nokkuð sáttur í bili. Og svo er það grillið. Nei, ég er ekki að tala um gas- eða kolagrill!

miðvikudagur, 11. júní 2008

Sökklarnir klárir og komnir undir hátalarana

Það hafðist að klára sökklana. Ebonylakkaðir og allt. Spækarnir á sinn stað - upp í loft - og hátalararnir ofan á. Það er ótrúlegt hvað þetta breytir hljóðinu. Bassinn verður jafnari og þéttari. Hreint dúndur. Spurning hvort ég þarf nokkuð að eiga við þá meira annað en að klára þá útlitslega.

Stefni að því að ná því í sumarfríinu.

(Ég þarf að henda mynd inn fljótlega).

fimmtudagur, 22. maí 2008

Sandur kominn í annan sökkulinn

Svakalega tekur langan tíma að þurrka sand. Og svakalega fer mikill sandur í sökklana. Líklega um 15 lítrar í hvorn. En alla vega, þá er ég búinn að þurrka heila fötu og sandurinn fór í annan sökkulinn í gær og lokið var límt ofaná.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Sandur í sökkla

Það er orðið nokkuð um liðið, síðan ég færði inn síðast, en verkefnin hafa verið mikil. Nú er ég sennilega að fá tíma til að fara í stillingar og ljúka smíðinni.


En ég er búinn að ná mér í sand í sökklana og er að þurrka hann. Kannski verður hann orðinn þur um helgina. Þá verður hægt að fylla þá, loka þeim, pússa og mála -- og setja pinnana!


Meira fljótlega.

mánudagur, 10. mars 2008

Enn framfarir

Hátalararnir eru enn að batna. Diskantinn er kominn upp, þannig að ekki er lengur þörf á að auka við diskant á magnaranum. Ennþá þarf ég þó að minnka bassann aðeins. Sjáum til í 2-3 vikur enn.

þriðjudagur, 4. mars 2008

Áframhaldandi prófun

Hátalararnir eru að tilkeyrast. Tónninn að mýkjast, en góðir hátalarar sýna lélegu inpútti enga miskunn. Ég þurfti að setja magnarann í viðgerð, því að hægri rásin var að truflast (það dró niður í henni annað slagið og einstöku sinnum heyrðust smá brestir). Það er víst heita vatnið og brennisteinsvetnið sem því fylgir, sem leggst á kontakta og Denon er greinilega með silfur í sínum snertum, þannig að verkstæðið skiptir yfirleitt um snertur. Þeir áttu þær ekki núna og létu nægja að hreinsa og húða með hlífðarefni.
Þannig að núna virkar allt fínt.

Ég er búinn að prófa alls konar músik núna, og mér sýnist stefna í að ég þurfi að minnka viðnámin á miðtónana og í það minnsta hátónana. Það má prófa líka að auka við ullina á mismunandi stöðum til að tempra bassann.

Annars (eins og vísað var til hér að ofan) eru innpúttin misjöfn. Sérstaklega kemur þetta mikið fram á sjónvarpinu. RUV er í fína lagi, en Stöð tvö og flestar aðrar rásir virðast hljóðhannaðar af guttum eins og þeim sem fylla skottið á bílunum sínum af bassakeilum. Verulega ýktur bassi og mikið til lýta. Þetta kemur ekki mikið fram í sjónvarpstækinu sjálfu, en þegar hljóðið er tekið yfir í góðan magnara (HI-FI) og hátalara, sem skila dýpt, þá er ekki gaman.

Stöð tvö og aðrar sjónvarpsrásir, sem láta heyrnarskerta unglinga stjórna hljóðinu, ættu að hugsa sinn gang!

Það verður smá hlé á frekari skrifum, því að ég reikna ekki með að hafa tíma til frekari tilrauna á næstunni. En það er verulega gaman að geta stjórnað eðli hátalaranna eins og hægt er að gera með þessa frá IPL Acoustics.

Næsta mál er að klára að setja tauið á grillið og síðan að mála hátalarana framan og aftan og að spónleggja þá. Einnig er eftir að fá þurran sand og fylla sökklana, líma lokið á þá, mála og setja pinnana (spikes) á.

mánudagur, 18. febrúar 2008

Hátalararnir samsettir, tengdir og prófaðir

Jæja, þá hafði ég það af. Náði að klára að líma saman hátalarana á laugardagskvöld. Ég lagaði fyrst það sem ekki hafði náð að festast nógu vel af frauðplastinu, krumpaði einangrunarhólkana í deiliboxinu og á plús snúrunum í hátalarana, svo að ekki kæmi upp víbringur þar, merkti þær einnig með rauðu teipi, límdi inn í hliðarplötuna frauðplötuna, sem á að vera til hliðar við bassann, vigtaði ullina og setti í á þremur stöðum samkvæmt tilmælum hönnuðar.





Hér er búið að merkja plúsana, setja ullina og frauðið í hornin (viðbót við það sem hönnuður setur upp). Reyndar endaði ég á að setja ull á alla fjóra staðina, sem mælt er með og virðist ekki af veita.



Allt small þetta saman og prófun nú skilaði betri árangri heldur en forprófunin, sem minnst var á í fyrri pistli. Hátalararnir eru ekki eins "boomy", en hátíðnin er samt hlutfallslega veik miðað við mið- og bassaeiningarnar. Líkast til þarf ég að skipta um viðnám og fara niður um 1,5 ohm (eins mikið og leyft er) fyrir hátíðnina. En það er best að leyfa hátölurunum að brjóta sig í nokkrar vikur og skoða málið þá.




Að öðru leyti kom prófunin frábærlega út. Klassík og kóramúsík kemur sérstaklega vel út, en einnig músíkal eins og "Chess" eftir þá ABBA félaba Björn og Benny og textahöfundinn Tim Rice. Ótrúlegt dúndur. Ég prófaði einnig m.a. "In the Plain" með Savage Rose og þar opnuðust nýjar víddir. Hreint frábært miðað við plötu (disk) frá 1968 (diskurinn reyndar remasteraður fyrir nokkrum árum -- masterinn hlýtur að hafa verið góður!).

Gospel og lofsöngsmúsík frá Vinyard hljómaði nú allt í einu stórfenglega.

Dýptin í hátölurunum er ótrúleg, bassinn hreinn og tær og auðstaðsettur. Miðtónarnir skýrir og gefa bæði miklu betra stereó en gömlu hátalarnir, en einnig koma öll smáatriði miklu betur fram. Veik hljóðfæri, sem áður heyrðust ekki fá nú að skína í gegn.

Hátalararnir eru einni að skila meiru núna en áður, sem sýnir sig í því að sama styrkstilling á magnaranum gefur meira hljóð en áður.



SDG (Soli Deo Gloria)!

þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Fyrsta prófun

Ég náði að klára að setja hátalaraeiningarnar í seinna boxið. Þá var bara að tengja og sjá hvort allt virkaði rétt. Og það var ekki annað að heyra. Lokið var bara lauslega fest með einu bandi, þannig að bassinn verður engan veginn eins þéttur eins og í endanlegu boxi, en hátalararnir virðast keyra léttar en þeir gömlu. Mjög skýrir og stereóið miklu betra en í þeim gömlu. Miðtónasviðið skýrara og djúpur bassi kemur vel fram. "Loudness" er óþarft jafnvel á minnsta styrk. Örlítið plasthljóð miðað við hina, en ég á von á að það breytist þegar búið verður að tilkeyra hátalarana.






Vinstri hátalarinn með grillrammanum, hinn ekki.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Boxin að verða tilbúin

Hér er seinna boxið langt komið. Ég sneið og límdi nú fyrst motturnar í botninn. Þær eru úðalímdar í með léttu gúmmíkenndu lími. Það er ástæðan fyrir því að ég nota málningarlímband á kantana.

Ég náði í gærkvöldi að klára annað boxið til prófunar og á bara eftir að setja hátalarana í hitt til þess að hægt sé að testa hvort allt virki. Ef allt er í lagi, þá er hægt að loka boxinu (líma vinstri hliðarnar á).

föstudagur, 8. febrúar 2008

Samsetning á lokastigi

Ég hef ekki haft tíma til að færa inn nýlega, en samsetningunni er að verða lokið.




"Innveggir" og skástífur eða endurkastshorn límd í boxið.

Búið að setja skástífurnar í báða hátalarana og þverstífurnar í annan hátalarann, nema þá sem fer efst og á að vera úr harðviði.


Ég fékk harðviðarbút í gær í Efnissölunni. Þetta var bútur úr umbúðum, en fyllilega nægilega góður til þessa brúks. Hann er líka það grófur að hann ætti að halda vel við ullina sem þar á að vera.


Lóðningin reyndist vera smá vandamál, því að þó að ég sé með 100w lóðbyssu, þá er oddurinn þannig formaður að hann nær ekki góðum kontakt og svo er þetta gikkbyssa og má ekki ganga nema ca 12 sekúndur í einu og þá þarf hún að hvíla sig í einhverjar mínútur. Vandamálið var sem sé hátalaratengin, sem eru gullhúðaðir stautar og nokkuð massívir. Þannig að ég fór í Rafvörumarkaðinn í Fellsmúla og fékk mér 100w járn (ca kr. 1100) sem getur lagst alveg að pinnanum. Ég prófaði að tina járnið í gær, en það misheppnaðist. Hefur líklega verið orðið of heitt þegar ég reyndi að tina. Skoða það aftur í kvöld.


Ég fékk mér einnig ódýrt kítti í túbu til að fylla í allar hugsanlegar rifur. Búinn að kítta báða hátalarana. Líka búinn að spreylakka svart gatið á bakinu fyrir hátalaratengin.


Dálítið tímafrekur þessi frágangur allur.


Næst er að tengja hátalaravírana við tóndeilirinn í seinna boxinu (sem ég þarf 100w járnið við), líma þverstífurnar innan í seinna boxið, líma frauðmotturnar innan í gangana, fylla hornhólfin af frauði, tengja og festa hátalarana í boxin og prófa. Þetta þyrfti að klárast um miðjan dag á morgun!


Hér sést annað boxið með tóndeilinum ísettum. Einnig er búið að kítta allt, bora gegnum millispjaldið fyrir vírunum í mið og hátíðni-hátalarana og draga í gegn. Þá sjést eitthvað af frauðmottunum tilsniðnum og ýmslegt smálegt.

föstudagur, 1. febrúar 2008

Hvar fæ ég diska eða hljóðfæla til að prófa tíðnisvið?

Marchand Electronics Sweep.
Atomic Software
Denon Hi-Fi Check CD
Audio Tools CD
og fleira á CD Universe

Meiri vinna í tóndeili

Frétti af verslun í Bolholtinu, Handverkshúsið. Fékk þar svart þunnt lakkspray og smáskrúfur. Þar fæst líka góður beis, en hann kostar 1800 og 2000 kr. brúsinn. Dálítið dýrt. Skoða málið annars staðar.
Fékk í Íhlutum vírahulsur (heatshrink).

Ég gat því klárað undirbúninginn að að geta farið að lóða á tóndeilinum, en til þess þarf náttúrulega að vera búið að ganga þannig frá hlutunum að tengipinnarnir fyrir hátalarakaplana séu endanlega fastir og rétt stilltir. Þar með þarf að vera búið að ganga frá yfirborði á baki tóndeilisspjaldsins.

Þegar ég var að meðhöndla tóndeilana losnuðu þrjú stykki á öðrum þeirra. Augljóst er að límbyssan er léleg -- hún hitar einfaldlega ekki nógu vel. En ég fann ráð víð því. Gas arin/kertakveikjari, sem virkar eins og nett logsuðutæki er notaður sem sígarettukveikjari á heimilinu. Hann virkaði vel. Hitaði límið upp og nú festist allt vel.

Og nú er allt tilbúið til lóðningar!



Tóndeilarnir samsettir að mestu. Bara eftir að lóða vírana í hátalaraeiningarnar og smá enda, sem ég nota sama vír í.

fimmtudagur, 31. janúar 2008

Tóndeilirinn mátaður í boxið

Maður á að fara eftir leiðbeiningunum! Ég gerði það ekki alveg og tapaði því smá tíma, þar sem ég þurfti að tvívinna smávegis. Ég hafði nefnilega ákveðið að raða upp og líma fasta hlutina í tóndeilinn áður en ég boraði fyrir festingum á bakinu á hátölurunum. Einnig gleymdi ég því að gaddarærnar á að negla í götin á spjaldinu svo að þau festist vel. Þetta tókst svo sem, en tók hálft gærkvöldið til viðbótar við fyrri tíma.

RTFM! (read the furnished manual - eins og þetta var upprunalega - IBM) eða á íslensku: LMH! (lesa meðfylgjandi handbók).

Jú, svo þurfti ég líka að laga útskurð fyrir hátíðnihátalaranum öðru megin. Límdi brot úr tappa í. Þarf svo að kítta í með viðarfylli til þess að allt sé þétt og slétt.

Ég þurfti náttúrulega að nota heitlímbyssuna og fann loksins aðferð til þess að hún virkaði nokkurn veginn eðlilega. Það virðist þurfa að losa stautinn alltaf úr og einnig að pota upp i stútinn með vír til að losa um það sem ekki vill bráðna almennilega eða það sem einhverra hluta vegna vill festa sig einhvers staðar á leiðinni.

Þá er það næst að lóða.

Þetta mjakast.

miðvikudagur, 30. janúar 2008

Lokasendingin frá IPL í hús

Hornstífurnar


Fékk mann til að hjálpa mér með aðstöðu og tæki til að saga hornstífurnar í gær.
Límdi upp tóndeilana í gærkvöldi. Lenti reyndar í vandræðum með límbyssuna. Hún dugar greinilega ekki í mikið meira en þessa tvo stauta sem fylgja henni. Algert drasl. Ég þarf hugsanlega að kaupa aðra. Hvernig stendur á að "virðuleg" fyrirtæki eins og Húsasmiðjan selja svona drasl?
Svo er bara að lóða með silfurtininu, sem er að koma.

Sendingin


Náði í sendinguna frá IPL í hádeginu í dag. 2stk. 10", HU1 vír 7m, hátalarakaplar 20m, silfurtin 2m og tekkspónn álímanlegur.
Mér finnst hins vegar nokkuð mikið sem pósturinn tekur í toll. 17 þús. kr. alls þurfti ég að borga. Þeir tollflokka ekki eftir sunduliðun, heldur setja allt í 25% vörugjald. Engan veginn er skýrt á reikningi þeirra hvaða prósentur eru notaðar né vísað í tollskrá. Ég held að tollpósturinn sé að rukka aukalega og hugsanlega með ólögmætum hætti fyrir tollstjóraembættið. Það þyrfti að athuga þetta.

Spónninn kemur vel út. Mun fallegri en mig grunaði. HU1 er mikið mjórri en ég hélt og kaplarnir eru nokkuð mjórri líka.

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Útsögun lokið

Ég dreif mig í að saga út grillið í gærkvöldi. Það gekk bara fínt. Maður er svona að læra á tækin. Mér sýnist að það sé smá hægri-villa í þessari. Blaðið leitar alltaf ögn til hægri, þannig að ekki er hægt að treysta á beinan skurð eftir landi. Það þarf að handstýra til vinstri. Kannski þetta sé munurinn á hobbý og professional verkfærum. Kæmi mér ekki á óvart.
Það var álíka mikil vinna að þrífa eins og að saga út.
Næsta mál er væntanlega að líma upp á tíðnideilinn. Síðan þarf ég að saga niður hornstífurnar.

mánudagur, 28. janúar 2008

Nokkrir tenglar á IPL

IPL - http://www.iplacoustics.co.uk
Heimsókn á staðinn - http://www.tubedistinctions.co.uk/ipl.htm
Julian setur saman S5TL - http://zerogain.com/forum/showthread.php?t=6136?t=6018
Julian ánægður með árangurinn - http://www.zerogain.com/forum/showthread.php?t=6443
Julian leitar leiða við að búa til x-over box - http://www.zerogain.com/forum/showthread.php?t=6018
Julina búinn að setja saman og setja upp - http://zerogain.com/forum/showpost.php?p=19&postcount=2
"A Speaker Kit with a Difference" - http://www.tnt-audio.com/casse/ipls3mtl2_e.html
Ýmsar skýrslur (review) um Transmission Line hátalara - http://www.t-linespeakers.org/projects/links.html

Áfram með grillið

Áttaði mig allt í einu á því að ég hafði gleymt að skera út fyrir loftunargatinu. Mér fannst allt í einu að grindin yrði of veik til þees að strekkja tauið yfir, þannig að ég fór að mæla út og merkja fyrir hátalaraeiningunum sjálfum. Líklega enda ég samt á að skera skv. upprunalegum teikningum. Strekkingin á greinilega ekki að vera mikil. 18mm MDF lengja 282mm löng þolir varla mikla strekkingu. En svo, eins og einn vinur minn benti á, er gott að strekkja eða leggja fyrst þunnan svamp undir. Kannski er líka í lagi að skipta gatinu í tvennt og skilja ca 10mm póst eftir í miðjunni?

laugardagur, 26. janúar 2008

Merkt fyrir á grilli

Gerði ekki mikið í gær. Náði þó að merkja fyrir útsögun á grillunum. Kemst sennilega ekki í að saga fyrr en á morgun.

föstudagur, 25. janúar 2008

Hitt boxið komið af stað

Setti saman lok, botn bak, framhlið og aðra hliðina í hinn hátalarann í gærkvöldi. Gekk eins og í sögu. Næsta mál: líma íhluttina fyrir tíðnigreininn (x-over kompónentana) niður á spjaldið, fara og saga skástífur og setja fláa á grillplöturnar. Saga síðan út í grillplöturnar. Hefla fláa á P1 plöturnar og rúnna hinn endann á þeim og annan endann á P2 og P3.



Millispjöldin rúnnuð, hefluð og slípuð með juðara.


Skila tjónalýsingu til ParcelForce v/IPL.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Annað boxið komið áleiðis

Keypti 2 stk. metra langar þvingur í gær. Hefðu mátt vera 4 stk. Náði að líma topp, lok, bak og framhlið á vinstri hliðina. Frábær hugmynd hjá Ivan þetta með kubbana, sem maður límir inn sem stýrikubba. Hjálpar mikið til.

Næsta verkefni er hitt boxið að sama marki. Síðan þarf að setja saman tíðnigreininn (Crossover) og skrúfa hann í.

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Fyrsta gatið

Keypti strekkjara og stingsagarblöð. Fékk borvélina mína í gærkvöldi og gat byrjað að gera götin. Kláraði að líma botnana. Lokin fara á síðar.

sunnudagur, 20. janúar 2008

Merkingar og fyrsta líming

Búinn að stilla af og staðreyna mælingar og merkja fyrir flest. Keypti ágætis hitalímbyssu og límstauta í Húsasmiðjunni í gær. Fékk gamla smíðaborðið mitt aftur í dag. Vantar nú borvélina, borana o.fl. sem eru hjá Lísu. Vantar líka 2 stk. þvingur ca 1m á lengd og 2 stk ca 50cm langar. Mínar eru ekki nema 15 og 20 cm. Náði að líma fyrsta stykkið, framstykkið á sökkulinn. Þetta verður að duga þangað til á morgun.


Búið að líma endastykkið (toppinn) og stillikubbana. Nota heitlím til að líma kubbana og PVA til að líma stykkin saman. Límbyssan ofan í kassanum. Þverspýtuna vinstra megin er ég aðeins að nota til að stilla bak og framhlið af. Efst til vinstri er lítið 10 sm stykki sem passar í gatið sem verður neðst að framan og er fyrir baksvefluna úr bassakeilunni.

föstudagur, 18. janúar 2008

Húsasmiðjan kemur til móts við mig

Ég hringdi í Húsasmiðjuna og talaði við sölustjórann í timbrinu. Við sættumst á að hann bæti við staðgreiðsluafslátt á reikningnum hjá mér til áramóta. Þá er bara að muna að staðgreiða!

MDF efnið komið - en er ekki hægt að treysta Húsasmiðjunni?

Ég raðaði upp á blað stykkjunum sem saga átti út úr MDF plötunum hjá Húsasmiðjunni. Það reyndist allt rétt nema að þeir söguðu út tvær grillplötur saman í staðinn fyrir tvær. Ég þurfti því að bíða eftir því að þeir söguðu það í sundur.
Ég hafði einnig beðið um 6mm efni MDF eða krossvið, annað hvort sagað út 2 stk. 113x230mm eða að fá einhverja smábúta til að hirða. Ég var búinn að fá tilboð frá þeim í þetta. Það var í afgreiðslunni. 22þús kr. Það átti líka að saga út tvo til þrá renninga 19mm úr 19mm plötunni. Það fórst fyrir.

Þegar upp var staðið ætluðu þeir að rukka fyrir hálfa 6mm plötu plús alla þessa sögun extra og líka þegar starfsmaður hafði látið saga 19sm í staðinn fyrir 19mm! Ég mótmælti því, en endaði samt í að þurfa að borga 25.300 kr. Ég er ekki sáttur við svona afgreiðslu. Alltof íslenskt!

Að öðru leyti: öll mál stóðust. Á Íslandi finnst manni það vera plús, ekki sjálfsagt.

Alla vega, heim í hús komst þetta og ég byrjaði á því að raða hlutunum saman til þess að sjá hvort ekki væri allt samkvæmt málsetningu. Það kom á daginn.





Uppröðun. Öll mál stóðust hjá Húsasmiðjunni. Plöturnar lauslega hnýttar saman með neti utan af jólatré!


En ferlegt hvað maður getur orðið ruglaður. Með dúndrandi hausverk í gær. Ein Parkódín Forte til að slá á. En samt skildi ég ekkert hvað voru margir litlir bútar. Ég var gjörsamlega búinn að gleyma standinum, sem er 6 stk. hvor!

Byrjaði að teikna fyrir útskurði. Kláraði framplötuna og bakið í annan hátalarann. Ætli maður komist ekki til að saga út um helgina?

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Pöntun á eftirstöðvum og pælingar í köplum

Búinn að panta það sem upp á vantar hjá IPL. 10" hátalarana aftur, ástraujanlegan spón, vírinn til að tengja inni í boxinu og hátalarakapla. Ég endaði á að taka VanDamme Blue Series Studio Grade 2,5mm. Þeir fá allst staðar frábæra dóma, ekki síst með tilliti til verðs. Og IPL er með þá ódýrari en flestir. Enda framleiddir í Devon, skilst mér.

Ég fór út um allan bæ á klukkutíma í gær (milli kl. 5 og 6) og hreint blöskraði verðin, sem boðið er upp á í þessum málum. Ég er að fá meterinn af VanDamme á ca 200 kr. hingað kominn, en sami klassi er yfirleitt á einhverja þúsundkalla í búðum hér.

Síðasti aðilinn sem ég talaði við, sagðist vera löngu hættur að pæla í þessum dýru lausnum. Hann hafði uppgötvað að mjúkt silfur 99,9% væri best. Hann sagði mér ekki hvaða þykkt, en þetta er einþátta vír. Flestir mæla með ca AWG 20, sem er ca 0,5mm. Síðan klæðir maður vírinn í kápu úr góðu efni og snúran er tilbúin fyrir annan pólinn.

Það væri gaman að prófa þetta einhvern tíma. Þetta er sennilega 4-5 sinnum dýrara en VanDamme, en betra en dýrustu lausnir, sem eru langtum dýrari.

Búinn að panta MDF

Pantaði MDF og skurð í Húsasmiðjunni í gær. Þetta á að vera tilbúið hjá þeim á morgun. Þeir eiga að vera með mjög nákvæma sögun +/- 0,2mm. Það lofar góðu. Reyndar skildist mér á þeim í Grafarholtinu að Skútuvogur væri með fláaskurð, en það er ekki tilfellið. Ég verð þá bara að saga gráðuskurðinn sjálfur.

föstudagur, 11. janúar 2008

Lengi lifi Íslandspóstur!

Já, þeir bættu mér hátalarana að mestu eða öllu leyti. Nú er að panta þá aftur og hugsanlega það annað sem ég þarf að fá hjá IPL, eins og kapla og spón. Einnig þarf kallinn að bæta við holuskinnum fyrir hátalarapinnana, en þeir komu ekki með öðru "hardware".

Ég hafði samband við Húsasmiðjuna varðandi efnið í boxin og þeir geta sagað nánast allt upp í hendurnar á mér. Góð þjónusta þar einnig.

Geng frá því eftir helgi.